Laugavegur árið 2019.

Laugavegur er helsta verslunargatan í miðbæ Reykjavíkur. Hún liggur frá Bankastræti í vestri að Kringlumýrarbraut til austurs. Þar tekur Suðurlandsbrautin við. Við götuna er fjöldi verslana, næturklúbba, bara og ýmissa þjónustufyrirtækja, auk íbúða.

Saga

Lagning Laugavegar var samþykkt í bæjarstjórn árið 1885. Skyldi hann auðvelda fólki ferðir í Þvottalaugarnar sem gatan dregur nafn sitt af. Einnig skyldi þjóðvegurinn út úr bænum koma í framhaldi af Laugavegi, enda höfðu Elliðaár þá verið brúaðar nýlega. Lagning Laugavegar, austur af gamla Vegamótastíg (sem er alls ekki sá sem núna liggur milli Laugavegar og Skólavörðustígs), hófst árið 1886 og var Vegamótastígur þá gerður að hluta Laugavegar.

Kjarval og Laugavegurinn

Árið 1923 skrifaði Jóhannes Kjarval grein í Morgunblaðið sem nefndist Reykjavík og aðrar borgir. Í henni telur hann margt Reykjavík til tekna og ræðir þar og meðal um Laugaveginn. Hann segir þar:

Laugavegurinn er svo formfull og laðandi gata, að hreinasta yndi er að ganga hana, ef hún bara væri hreinlegri en hún er og ef hún væri sléttuð og snyrtilega um hana hugsað frá Smiðjustíg alla leið inn að Rauðárlæk, má segja að gatan lokki mann og seyði. Þessi ör fíni halli, sem laðar augað og tilfinninguna inneftir - inneftir - eða niðureftir á víxl.

Hann lýkur greininni svo með því að tala um Reykjavík almennt, og spyr hvað hana vanti, og heldur áfram:

Stórhýsin meðfram götunum munu margir segja, fagran byggingarstíl til þess að öðlast menningarbraginn. Nei, það er ekki það sem skapar menningarbrag. Það er samræmið. Það er vitandi nægjusemin byggð á útreikningi eftir ákveðnum lögum og heppni einstöku sinnum. Það er smekkur, sem skapar menningarbrag, hreinlæti - virðing fyrir sjálfum sér, og ást á einhverju, sem stendur fyrir utan einstaklinginn. Þetta sem allir eiga í sameiningu: sérkennið, þjóðarrétturinn og vísindin. [1]

Hús við Laugaveginn

Tilvitnanir

Tenglar

  Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.