Skjaldarmerki Wiesbaden Lega Wiesbaden í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Hessen
Flatarmál: 203,9 km²
Mannfjöldi: 278.000 (2019)
Þéttleiki byggðar: 1.343/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 117 m
Vefsíða: www.wiesbaden.de

Wiesbaden er höfuðborg þýska sambandslandsins Hessen og jafnframt næststærsta borg héraðsins með 278 þúsund íbúa (2019). Wiesbaden er gömul rómversk borg, þekkt fyrir böð.

Lega

Gamla baðhúsið í Wiesbaden

Wiesbaden liggur við Rínarfljót nær suðvestast í Hessen, einmitt þar sem áin Main rennur í Rín. Gegnt Wiesbaden, við suðurbakka Rínar, liggur borgin Mainz í sambandslandinu Rínarland-Pfalz. Aðrar nálægar borgir eru Frankfurt am Main til austurs (20 km) og Koblenz til norðvesturs (50 km).

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Wiesbaden sýnir þrjár gylltar liljur á bláum fleti. Það er franskt að uppruna og er frá 16. öld. Núverandi merki var tekin upp 1906.

Orðsifjar

Rómverjar nefndu borgina Aquae Mattiacorum eða Civitas Mattiacorum, eftir germanska þjóðflokknum mattiaker. En á tímum Karlamagnúsar kölluðu menn borgina Wisibada, sem merkir baðið á enginu (Wiese = engi). [1]

Saga Wiesbaden

Upphaf

Það voru Rómverjar sem fyrst settust að á núverandi borgarstæði, en þeir reistu virki þar snemma á 1. öld (um 6-15 e.Kr.). Pliníus eldri minnist fyrstur manna á heitu böðin árið 77 e.Kr. Í kjölfarið reisa Rómverjar þar baðhýsi. Aðalhverinn er 66° heitur (Celsius) og gefur enn í dag af sér 346 lítra á mínútu. En strax árið 260 eyddu alemannar rómverska virkinu og hurfu Rómverjar því á brott. Þeir reistu þar þó varnargarð (landamæragarð) sem alemannar létu í friði. Á 6. öld hertóku frankar svæðið og reistu þar borg. Heitið Wiesbaden kemur fyrst við skjöl milli 820-830. Á 12. öld fengu greifarnir í Nassau borgina að léni, en 1232 verður Wiesbaden að ríkisborg. Þetta fór fyrir brjóstið á erkibiskupnum í Mainz, sem jafnframt var einn kjörfurstanna. 1242 safnaði hann liði, réðist á Wiesbaden og brenndi hana til kaldra kola. Wiesbaden og Mainz liggja gegnt hvor annarri og skilur aðeins Rínarfljót á milli. 1283 er Wiesbaden aftur brennd til kaldra kola í deilum greifanna af Nassau.

Erjur og trúarórói

Wiesbaden 1655. Mynd eftir Matthäus Merian.

Meðan siðaskiptin fóru fram í öðrum borgum snemma á 16. öld, hélt kaþólska kirkjan borgarbúum í föstum höndum. 1525 var blásið til bændauppreisarinnar miklu. Hópuðust þá margir borgarbúar saman og gengu til liðs við bændur. En uppreisnin var barin niður af mikilli hörku. Borgarbúar misstu fyrir vikið öll réttindi sem þeir höfðu áskilið sér í gegnum aldirnar. Siðaskiptin fóru ekki fram í Wiesbaden fyrr en 1543. Sama ár var latínuskóli stofnaður. En aðeins þremur árum seinna verður stórbruni í borginni og eyðilögðust við það margar byggingar. Annar stórbruni varð 1561.

Höfuðborg og baðbær

1744 setjast greifarnir í Nassau að í Wiesbaden og reisa sér þar kastala. En 1806 er þýska ríkið lagt niður og Rínarsambandið stofnað. Nassau verður að hertogadæmi og verður Wiesbaden þá höfuðborg, í fyrsta sinn í sögu borgarinnar. 1810 er spilavíti stofnað í borginni, enda laðaði borgin ýmsa vel stæða gesti til sín í sambandi við böðin. Meðal gesta spilavítisins má nefna rússneska rithöfundinn Fedor Dostojeskíj og tónskáldið Richard Wagner. 1848 urðu uppreisnir í mörgum þýskum borgum. Í Wiesbaden söfnuðust 30 þús manns saman við kastala greifans og heimtuðu stjórnarskrá. Greifi lét undan og urðu því íbúar greifadæmisins Nassau meðal þeirra fyrstu í þýska ríkinu til að hljóta stjórnarskrá. Í þýsk-austurríska stríðinu 1866 gekk Nassau til liðs við Austurríki og barðist gegn Prússum. En Prússar sigruðu í því stríði og innlimaði Bismarck þá Nassau í Prússland. Wiesbaden missti þar með stöðu sína sem höfuðborg sem hún hafði aðeins haft í 60 ár. Á hinn bóginn dafnaði borgin mjög sem heilsubær og ráðstefnuborg. Um aldamótin 1900 er borgin orðin að heimsbaðborg og kölluð Nice norðursins (Nizza des Nordens), en Nice er franskur baðbær við Miðjarðarhaf. Vilhjálmur II, Prússakeisari, var reglulegur baðgestur í Wiesbaden. Íbúatalan fór á þessum tíma yfir 100 þús.

Nýrri tímar

Bretar þramma um götur Wiesbaden 1929

Eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri hertóku Frakkar borgina. Hún varð hluti Rínarsvæðisins sem Frakkar áskildu sér sem stríðsskaðabætur. 1921 fór fram mikil ráðstefna í borginni um stríðsskaðabætur Þjóðverja og voru samningar þess eðlis undirritaðir þar. 1925 settust Bretar að í borginni og varð hún aðalaðsetur breska hersins á Rínarsvæðinu allt til 1930, en árinu áður var borginni skilað aftur til Þýskalands. Þjóðverjar reistu þar herflugvöll og það var frá þessum flugvelli sem þýska herdeildin hóf sig til flugs sem gerði loftárásir á spænsku borgina Gernika meðan spænska borgarastríðið geysaði. Í heimstyrjöldinni síðari varð Wiesbaden fyrir minni loftárásum en margar aðrar þýskar borgir. Loftárásirnar urðu alls 66 talsins og eyðilagðist um fjórðungur af borginni. 28. mars 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina. Hún var á bandaríska hernámssvæðinu. Hessen varð fyrsta sambandsríki Þýskalands 1. desember 1946 og varð Wiesbaden þá höfuðborg þess. Ástæða þess að Wiesbaden var valin sem höfuðborg var sú að hún var tiltölulega lítið skemmd eftir stríðið og Frankfurt (og reyndar Kassel einnig) biðu í voninni um að verða höfuðborg nýs Þýskalands. Herflugvöllurinn í Wiesbaden var notaður sem stökkpallur til Berlínar meðan loftbrúin var í gangi þar eftir stríð. Daglega í 11 mánuði fóru vélar þaðan með matvæli og vistir til Vestur-Berlínar sem Sovétmenn höfðu einangrað. Þegar Sambandslýðveldi Þýskalands var stofnað 1949 festist Wiesbaden í sessi sem höfuðborg Hessen, þrátt fyrir að Frankfurt náði ekki að verða höfuðborg Þýskalands, heldur Bonn.

Viðburðir

Vinabæir

Wiesbaden viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

Byggingar og kennileiti

Markaðskirkjan
Nýja ráðhúsið er einkar glæsilegt

Tilvísanir

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls 276.

Heimildir

Fyrirmynd greinarinnar var „Wiesbaden“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.